Vestfjarðaferð - Tillaga að 4 daga ferð um Vestfirði

Strandirnar – Ísafjörður – Dynjandi – Látrabjarg – Breiðafjörður – Stykkishólmur – Sigling á Breiðafirði

1.dagur: Reykjavík – Strandir – Súðavík – Ísafjörður
  
Frá Reykjavík til Ísafjarðar.
 
Ráðlagt er að leggja snemma dags af stað til þess að nýta daginn sem best.  Keyrt er sem leið liggur frá Reykjavík eftir þjóðvegi 1  um Hvalfjarðargöngin, upp Norðurárdal og beygt út af þjóðvegi 1 hjá Brú í Hrútafirði á veg nr. 61.  Þaðan liggur leiðin til Hólmavíkur þar sem upplagt er að stoppa aðeins og skoða Galdrasafnið og kynnast galdramenningu fyrr á öldum en Strandamenn voru frægir fyrir að hafa áhrif á veðurguðina ef svo bar undir.
Frá Hólmavík er lagt á Steingrímsfjarðarheiði áfram eftir veg.nr.61 og keyrt yfir í Ísafjarðardjúp og þrætt fyrir Ísafjörð, Mjóafjörð, Skötufjörð, Hestfjörð og Seyðisfjörð.  Firðirnir eru allir fallegir og tilvalið að finna sér stað til á stoppa á og virða fyrir sér landslagið.  Því næst kemur Álftafjörður þar sem þorpið Súðavík stendur en þar féll snjóflóð á bæinn árið 1995 og í framhaldi var byggðin flutt í land Eyrardals um 1.5 km innar í firðinum en gamla byggðin er nýtt sem sumargisting.  Því næst er komið í Skutulsfjörðurinn þar sem höfuðstaður Vestfjarða Ísafjarðarbær er staðsettur að mestu á eyri umlukinn fjalladýrð.  Tilvalið er að gista á Ísafirði eða í nærliggjandi bæjum t.d. Súðavík, Hnífsdal, Bolungarvík, Suðureyri eða Flateyri.  Stutt er á alla staðina.
Gert er ráð fyrir að koma til Ísafjarðar um kvöldmatarleitið þannig að tími gefst til þess að skoða bæinn og sjá hvað þar er í boði.

2. dagur: Ísafjörður – Arnarfjörður – Dynjandi – Suðurfirðir
 
Frá Ísafirði til Patreksfjarðar. 

Lagt af stað snemma frá Ísafirði og keyrt sem leið liggur um Óshlíðina til Bolungarvíkur.  Upplagt er að stoppa á safninu Ósvör sem geymir minningu horfinna vertíða og sjósókn manna á öldum áður.
Halda verður til baka inn á Ísafjörð til þess að komast um göngin til Suðureyrar sem er lítið þorp í lokuðum firði.  Aftur er keyrt um göngin en nú í hina áttina og til Flateyrar í Önundarfirði.  Öndundarfjörður er fagur fjörður með hvítu sandrifi fyrir miðju.  Þegar komið er til Flateyrar blasir snjóflóðavarnargarðurinn við eins og A í hlíðinni fyrir ofan bæinn.  Upplagt er að staldra við og skoða Brúðusafnið en þar eru samankomnar brúður frá alls 60 löndum.  Ýmis önnur afþreying er í boði á Flateyri. 
Áfram er haldið frá Flateyri og yfir Gemlufallsheiðina yfir í Dýrafjörð eftir vegi.nr.60.  Heiðin er nokkuð brött og krókótt og um að gera að fara varlega fyrir óvana og lofthrædda.  Þegar komið er niður í Dýrafjörðinn blasir þorpið Þingeyri við hinum megin fjarðarins.  Þangað er förinni heitið og áfram yfir Hrafnseyrarheiði og komið niður í Arnarfjörð.  Arnarfjörðurinn er ægifagur og fyrst á vinstri hönd er bærinn Hrafnseyri þar sem Íslandshetjan, þingmaðurinn og forsetinn Jón Sigurðsson fæddist en hann leiddi Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni við Dana á 19.öld.  Bærinn Hrafnseyri er hins vegar kenndur við Hrafn Sveinbjarnarson sem talinn er vera með meiri stórmennum Íslandssögunnar.  Tilvalið er að stoppa á safninu á Hrafnseyri og skoða sig um og ekki spillir ægifagurt útsýni yfir Arnarfjörð frá bænum.  Innst í firðinum eru Borgarfjörður og Dynjandisvogur þar sem fossinn Dynjandi er en hann er með tygnarlegri fossum á landinu.  Þarna hefur verið gert tjaldsvæði með aðstöðu og tilvalið fyrir þá sem vilja dvelja í Arnarfirði að gista þar.  Í þessari ferð kjósum við að halda áfram um Dynjandisheiði eftir vegi nr.60 fram hjá Geirþjófsfirði, um Suðurfirðina til Bíldudals þar sem safnið Melódíur minninganna er.  Í stað þess að halda áfram Dynjandisheiðina í átt til Brjánslækjar beygjum við niður á Suðurfirðina Trostanfjörð, Reykjarfjörð og Fossfjörð eftir vegi nr.63.  Þarna eru nokkuð hrikalegir vegir í fjallshlíðunum en það er hluti upplyfuninnar þegar ferðast er í svo hrikalegu landslagi sem þessu.  Firðirnar eru allir ægifagrir og oft er eins og maður sé á toppi heimsins því svo háar eru heiðarnar á þessu svæði.  Loks er komið niður í Bíldudal.  Fyrir þá sem vilja fara enn hrikalegri veg getað keyrt sem leið liggur í gegnum bæinn og út eftir Arnarfirðinum í Selárdalinn eftir vegi nr.619, en í þessari ferð er kosið að halda áfram eftir vegi nr.63 yfir Hálfdán og niður á Talknafjörð og þaðan sem leið liggur yfir á Patreksfjörð og gist þar. 

3. dagur:  Rauðisandur - Hnjótar - Látrabjarg – Breiðafjörður
 
Frá Patreksfirði til Stykkishólms. 

Lagt er snemma dags af stað frá Patreksfirði eftir vegi nr.62 og keyrt sem leið liggur inn fjörðinn og stoppað í botni fjarðarins við Garðar elsta stálskip Íslendinga smíðað árið 1912 og það eina með þessu byggingarlagi.  Skipið stendur á þurru í fjörunni svo hægt er að skoða það ef vill.  Haldið er áfram fyrir fjarðarbotninn og beygt inn á veg nr.612  því mikið er framundan á þessu svæði.  Keyrt er sem leið liggur og beygt um veg 614 að Rauðasandi.  Sandurinn er í raun hvít strönd en í ákveðinni birtu virðist sem rauð slikja falli á sandinn.  Þarna er um hrikalegan veg í snarbrattri fjallshlíð að fara og ekki ráðlagt fyrir fólk sem er lofthrætt eða óöruggt í lausamöl að fara.  Þegar komið er til baka á veg 612 er keyrt áfram út fjörðinn og að bænum Hnjótur en þar er eins konar Byggðasafn svæðisins (Mynja- og flugmynjasafn Egils Ólafsssonar) og allir skildu láta það eftir sér að eyða tíma í að horfa á myndband á safninu af björguninni á breska togaranum Doon við Látrabjarg.  Þegar safninu er sleppt er haldið upp að Látrabjarginu sem er í senn hrikalegt en undurfagurt og heimkynni fjölmargra fuglategunda.  Bjargið er stærsta sjávarbjarg landsins og eitt þéttsetnasta fuglabjarg heims en það stendur við Breiðafjörðinn og  er vestasti hluti meginlands Evrópu.  Það er um 14 km langt og 440 m hátt þar sem það er hæst við Djúpadal.  Að meðaltali er bjargið 80% bratt.  Nokkur nöfn eru á löngu bjarginu og frá austri heitir það Keflavíkurbjarg, Breiðavíkurbjarg, Bæjarbjarg og svo vestast Látrabjarg.  Tilvalið er að gefa sér tíma þarna og borða nesti og njóta nálægðarinnar við náttúruna.  Lagt er af stað aftur eftir vegi nr.612 inn Patreksfjörðinn og yfir Kleifarheiðina eftir vegi nr. 62 yfir á Barðaströndina, en þar eru strendurnar ýmist hvítar, svartar eða röndóttar.  Hvítu strendurnar á Vestfjörðum eru trúlega skeljasandur úr Breiðafirði sem berst með hafstraumum inn á firðina, en yfirleitt eru strendur svartar á Íslandi.  Keyrt er sem leið liggur eftir vegi nr.62 alla leið á Brjánslæk, en þaðan fer ferjan Baldur til Stykkishólms  kl.19:30 en gott er að vera búinn að panta ferðina áður svo víst sé að komast með. Þeir sem vilja geta líka keyrt sem leið liggur um dalina í gegnum Búðardal en í þessari ferð er kosið að taka ferjuna til Stykkishólms og gista þar.


4. dagur: Stykkishólmur – sigling á Breiðafirði – Reykjavík
 
Frá Stykkishólmi til Reykjavíkur. 

Farið er í siglingu með Sæferðum strax fyrir hádegi.  Hægt er að velja hvort er farið út í Flatey og þá með ferjunni Baldri og beðið eftir að hann komi til baka frá Brjánslæk eða farið í Suðureyjasiglinguna sem tekur um 2 klst og 15 mínútur.  Í þessari ferð er valið að fara í Suðureyjasiglinguna og skoða fuglalíf nokkurra eyja s.s Lunda, Ritu, Skarf, Haförn og fl. og smakka á skelfiski og ígulkeri, en í ferðinni er farþegum boðið upp á veigar Breiðafjarðarins.  Þegar aftur er komið í land er tilvalið að skoða bæinn ef það hefur ekki verið gert um morguninn og snæða síðbúinn hádegisverð t.d. á veitingastaðnum Fimm fiskum sem bíður upp á úrval af sjávarfangi.
Síðan er keyrt sem leið liggur út úr Stykkishólmi eftir vegi nr.58 og beygt til hægri á veg nr. 57 og því næst yfir heiðina að Vegamótum eftir vegi nr.56.  Útsýnið er fallegt á leiðinni og þegar komið er að Vegamótum er tekin stefnan eftir vegi nr.54 í Borgarnes en þar er aftur komið á þjóðveg 1 sem liggur til Reykjavíkur þar sem ferðin endar.

Fyrir þá sem vilja njóta meira af afþreyingu Vestfjarða s.s. siglinga á Ísafjarðardjúpi, eyjaferða, kajaksiglinga og fleira ættu að bæta við degi eða tveimur.