Landnám

Landnám Íslands er talið hefjast árið 874 þegar norskir menn fluttust búferlum yfir hafið vegna landþrenginga og ófriðar á heimaslóðum. Um svipað leiti sameinaði Haraldur hárfagri Noreg undir sig. Formlegt landnám er oftast miðað við komu landnámsmannsins Ingólfs Arnarssonar, en hann er talinn vera sá fyrsti sem kom til Íslands og nam land í þeim tilgangi að setjast að. Hann byggði bæ sinn í Reykjavík og bjó þar til dauðadags. Landnámsöld á Íslandi er talin standa til 930 þegar Alþingi Íslendinga var sett við Öxará á Þingvöllum.

Áður en formlegt landnám hófst er talið að írskir einsetumenn “papar” hafi verið hér, en hrökktust burt við komu norrænna manna. Fyrsta ritaða heimildin um landið er talin vera í bók írsks munks af nafni Dicuílus “De mensura orbis terrae” frá því um 825. Þar greinir munkurinn frá því að hann hafi hitt aðra írska munka sem höfðu búið á eyjunni Thule, þar sem dagar voru stuttir að vetrum, en bjart um miðnætti að sumrum.

Á 10. og 11.öld komst meiri festa á landvinninga víkinga, en þeir stofnuðu ríki á Írlandi, í Orkneyjum, á Normandí, á Norðaustur Englandi, í Rússlandi og á Íslandi. Íslandsbyggð varð því til upp úr víkingaferðum, en víkingaöldinni er talið ljúka árið 1066 þegar Norðmenn réðust inn í England og með orustunum við Stanfordbridge og Hastings.

Með landnáminu tók að ganga verulega á gróðurlendi landsins, vegna athafna mannsins og bústofns, en fyrir landnám hafði gróður fengið að vaxa og dafna í þúsundir ára. Landnámsmenn ruddu skóga og ræktuðu gras og röskuðu þeim viðkvæma gróðri sem fyrir var til þess að hægt væri að búa í þessu ósnortna landi. Samverkandi áhrif af búsetu manna, náttúruhamförum og veðráttu hefur haft þær afleiðingar að mikill hluti af gróður- og jarðvegsþekju landsins hefur glatast, þar sem íslenskur jarðvegur er mjög viðkvæmur og rofgjarn vegna öskunnar sem í honum er. Mest eyðing hefur þó orðið á hálendi landsins þar sem nú finnst aðeins einstaka gróðurvin.